Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er ekki hlynntur því að Landspítalinn verði byggður í einkaframkvæmd, t.a.m. með eignatryggðri fjármögnun. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld sagði hann það ekki hafa gefist vel að einkaaðilar byggi tekjumódel sitt á leigugreiðslum ríkisins.

Fagfjárfestar hafa sýnt því áhuga að taka þátt í byggingu nýs Landspítala með eignatryggðri fjármögnun. Um er að ræða leið sem felur í sér að fjárfesta myndu tryggja byggingu spítalans með kaupum á skuldabréfum sem tryggð væru með framtíðarrekstrartekjum spítalans.

Bjarni segir að almennt þegar einkaaðilar taki lán til að fara í framkvæmdir og ætli síðan að byggja tekjumódelið á því að ríkið borgi leigu, þá hafi það komið verr út fyrir ríkið. Hann bendir á að ríkið hafi almennt betri möguleika á hagstæðum lánakjörum.