Listaverk Jóhannesar S. Kjarvals hafa selst langmest á íslenskum listaverkamarkaði frá árinu 1985. Velta með verk Kjarvals á árunum 1985 til 2011 nam rúmlega 370 milljónum króna. Alls voru 1.144 verk eftir hann boðin upp, samkvæmt úttekt Jóhanns Ágústs Hansen, listmuna- sala og viðskiptafræðings.

Fyrirtæki hans, Hansen og synir, hefur haldið úti íslensku listaverkavísitölunni frá árinu 2006 í samstarfi við Gallerý Fold og fleiri. Vísitalan nær aftur til ársins 1985.

Jóhann Ágúst Hansen, listmunasali hjá Gallerí Fold
Jóhann Ágúst Hansen, listmunasali hjá Gallerí Fold
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Gildi íslensku listaverkavísitölunnar í lok árs 2011 er 90 stig. Upphafsgildi hennar árið 1985 er 100 stig og er hún á verðgildi ársins 2011. Markaðurinn tók mikla dýfu samhliða efnahagshruninu. Jóhann Ágúst bendir á í úttekt sinni að markaður listaverka hefur rétt eins og aðrir markaðir ekki farið varhluta af hruni íslensks efnahagslífs, eftir fall bankanna haustið 2008. „Þó að verð listaverka fylgi almennt ekki nema að hluta þróun neysluverðs, vaxta eða vergrar landsframleiðslu þá eru skammtímaáhrif þessara þátta mikil,“ segir hann.

Í niðursveiflu verður erfiðara fyrir seljendur að losa um verk fyrir reiðufé og þeir hika við að selja vegna mögulegs sölutaps.

Nánar er fjallað um listaverkamarkaðinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Jóhann Ágúst Hansen, listmunasali hjá Gallerí Fold
Jóhann Ágúst Hansen, listmunasali hjá Gallerí Fold
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)