Nýlega tilkynnti markaðs- og ráðgjafafyrirtækið Nordic eMarketing um undirritun þriggja samninga við erlenda aðila.

Um er að ræða enska knattspyrnuliðið Manchester City, NFL í Bretlandi (bandaríska atvinnumannadeildin í fótbolta) og franska fyrirtækið Augure sem starfar á sviði almannatengsla á netinu.

Nordic eMarketing var stofnað árið 2005. Meðal viðskiptavina þeirra eru alþjóðlegu fyrirtækin British Airways, Fujitsu, Hitachi, Siemens og Tesco.

Kristján Már Hauksson, sviðsstjóri Internetmarkaðssetningar og einn stofnenda fyrirtækisins, segir samninginn við Manchester City ganga út á markaðssetningu félagsins í Brasilíu en þrír leikmenn félagsins koma þaðan.

„Félagið hefur fundið fyrir gríðarlegum áhuga frá Brasilíu undanfarið, t.d. gegnum netið. Hlutverk okkar er m.a. að greina betur þá aðsókn og finna leiðir til að auka sölu á vörum gegnum netið til Brasilíu.”

Hann segir samninginn sem slíkan ekki stóran en hins vegar sé mikilvægt fyrir fyrirtækið að stíga fæti inn á þennan markað sem snýr að breskum íþróttafélögum.

Samningurinn við NFL í Bretlandi er öllu stærra í sniðum segir Kristján og gæti hlaupið á tugum milljóna króna.

„Þetta verkefni er tvíþætt. Í fyrsta lagi snýr það að tæknilegri lausn fyrir nettölvuleik sem þeir hafa búið til en eftir er að aðlaga fyrir Bretlands- og Evrópumarkað. Þessi hluti verkefnisins er unninn í samvinnu við auglýsingastofuna Hvíta húsið en þar eru m.a. gerðar úttektir á leiknum og tillögur til útbóta settar fram."

Hinn hluti verkefnisins snýr að sögn Kristjáns að markaðssetningu deildarinnar og íþróttarinnar í Bretlandi. Inn í þá vinnu spilar m.a. hvernig hægt sé að spila netleikinn og kaupa ýmsan varning

Nánar er fjallað um Nordic eMarketing í viðtali við Kristján Már Hauksson í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .