Fjölmargir fjárfestar, íslenskir og erlendir, taka þátt í kaupum á Big Food Group ásamt Baugi. Í hópi íslensku fjárfestanna sem leggja til hlutafé eru þrjú skráð félög: KB banki, Landsbanki og Burðarás. Jafnframt taka KB banki og Landsbanki þátt í lánsfjármögnun verkefnisins. Eins hefur fyrirtækjaráðgjöf KB banka unnið að verkefninu. "Verkefnið er stórt en á þessu stigi liggur ekki nánar fyrir um þátt hvers og eins, þ.e. umfang hlutafjárþátttöku, lánsfjármögnunar eða ráðgjafartekna," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að ætla megi að hlutaðeigandi teldu þessi viðskipti það umfangsmikil að tilefni væri til að greina nánar frá þeim. Sérstaklega á það við um hlutafjárþátttökuna. Í fréttum erlendra fjölmiðla af viðskiptunum hefur verið vísað í fréttatilkynningu, sem hins vegar hefur ekki verið birt í fréttakerfi Kauphallar Íslands. Af þessu má draga þá ályktun að þáttur KB banka, Landsbanka og Burðaráss í viðskiptunum sé minni en svo að upplýsingarnar teljist geta haft verðmyndandi áhrif á félögin.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.