Lítið er vitað um Kim Jong Un, yngsta son og arftaka Kim Jong Il, leiðtoga Norður-Kóreu sem féll frá um helgina. Ríkissjónvarpið þar í landi lýsti því yfir í dag að hann muni feta í fótspor föður síns. Móðir hans var Ko Young-hee, ein af konum leiðtogans. Hún er jafnframt móðir Kim Jong-chul, annars sonar Kim Jong Il sem um skeið var nefndur sem hugsanlegur arftaki föður þeirra bræðra. Ko Young-hee lést árið 2004.

Kim Jong Un
Kim Jong Un

Bloomberg-fréttastofan segir stjórnvöld í Norður-Kóreu ekki hafa staðið sig í stykkinu við kynningu á nýjum leiðtoga Norður-Kóreu. Þótt andlát leiðtogans virðist hafa komið á óvart þá hafi legið fyrir um nokkurt skeið að Kim Jong Un muni taka við af föður sínum.

Kim Jong Un mun vera öðru hvoru megin við þrítugt, fæddur annað hvort árið 1983 eða 1984. Hann er talinn menntaður í Sviss á árunum 1998 til 2001 og geta tjáð sig á nokkrum tungumálum, ensku, þýsku og hugsanlega frönsku. Þá mun Un hafa gaman að kvikmyndum um njósnara hennar hátignar James Bond og körfuboltastjörnuna Michael Jordan.

Bandaríska fréttastofan CNN segir fáa hafa gert sér grein fyrir því á sínum tíma að á meðal þeirra væri sonur leiðtoga Kim Jong Il. Hann hafi kynnt sig sem Pak Un og haft gaman af því að spila körfuboltaleiki í PlayStation-leikjatölvu. Einn samnemenda hans segir í samtali við fréttastofuna fátt annað hafa komist að hjá honum.