Vísitala neysluverðs í ágúst 2007 er 273,1 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,04% frá fyrra mánuði að því er kemur fram í frétt Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 245,0 stig, lækkaði um 0,37% frá júlí. Þar sem sumarútsölur eru enn í gangi hefur það talsverð áhrif og og lækkaði verð á fötum og skóm um 6,8% (vísitöluáhrif -0,29%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,5% (0,28%), þar af voru 0,24% áhrif vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis en 0,04% vegna hækkunar vaxta.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,4% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 0,5%. Fastskattavísitala neysluverðs hefur hækkað um 5,3% síðastliðna tólf mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,8% sem jafngildir 3,1% verðbólgu á ári (1,1% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs í ágúst 2007, sem er 273,1 stig, gildir til verðtryggingar í september 2007. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.392 stig fyrir september 2007.