Mest viðskipti í kauphöllinni í dag voru með bréf Arion, Haga og Símans, eða fyrir samtals 372,4 milljónir króna sem eru 63,4% allra viðskiptanna með hlutabréf.

Gengi Icelandair lækkaði um 6,40% í viðskiptum dagsins sem þó voru ekki nema fyrir 8 milljónir króna. Fór gengið niður í 1,17 krónur, sem þó er nokkru hærra en 1 krónu útboðsgengi nýrra bréfa í félaginu fyrir hlutafjárútboðið sem hefst á morgun.

Var þetta mesta lækkunin í Kauphöllun Nasdaq á Íslandi í dag, en Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,17%, niður í 2.146,30 stig, í einungis 587 milljóna króna heildarviðskiptum dagsins.

Næst mest var lækkun bréfa Reginn, eða 1,88%, í enn minni viðskiptum en Icelandair, eða fyrir 2 milljónir króna, en þriðja mesta lækkunin, á bréfum Sýnar fyrir 1,61%, var sama marki brennd en þau voru fyrir einungis 6 milljónir króna. Fór gengi Reginn niður í 15,65 krónur, en gengi bréfa Sýnar endaði í 30,60 krónur.

Síminn hækkaði en Arion og Hagar lækkuðu

Einungis fjögur félög hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, þar af Festi mest, eða um 0,70%, upp í 144,50 krónur, í þó ekki nema 217 þúsund króna viðskiptum.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Símans, sem hækkuðu um 0,58%, upp í 6,90 krónur, í 108 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þau þriðju mestu í kauphöllinni með bréf í einu félagi í dag.

Þriðja mesta hækkunin var á bréfum VÍS, eða um 0,37%, í 16 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfa félagsins 10,75 krónur.

Mestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 143,1 milljón króna en bréf félagsins lækkuðu um 1,30%, niður í 76 krónur. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Haga, eða fyrir 121,1 milljón króna, en þau lækkuðu um 0,55% í viðskiptunum, og enduðu í 49,42 krónum.