Hlutabréfamarkaðir lækkuðu flestir lítillega í Evrópu í dag en það sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki auk fjarskiptafélaga sem leiddu lækkanir dagsins.

Það sem hins vegar dró úr lækkun markaða og orsakaði hækkun á sumum stöðum var hækkandi olíuverð sem olli hækkun olíu- og orkufélaga.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 0,6% í dag og er þetta þriðji dagurinn í röð sem vísitalan lækkar. Vísitalan, sem nú hefur aldrei verið lægri, hefur lækkað um 21% það sem af er ári en hún lækkaði um 45% í fyrra.

Eins og áður sagði voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði HSBC um 3,1% (eftir að hafa þó lækkað um 24% við opnun í morgun), Barclays um 4,6%, Royal Bank of Scotland um 4%, Societe Generale um 3,8% og UBS um 5,3% svo dæmi séu tekin.

Þá lækkuðu fjarskiptafélögin BT Group um 3%, Telecom Italia um 4,6% og France Telecom um 2,8% svo dæmi séu tekin úr þeim geira.

Olíufélög á borð við BP, Shell og Total hækkuðu á bilinu 2,5 – 3%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,1% en í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,7%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,1%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,1% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,8% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,8%.