*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 5. október 2020 17:39

Litlar hækkanir hjá hástökkvurunum

Festi, Marel og Origo hækkuðu mest, en einungis um 0,51 til 0,69%, meðan Icelandair lækkaði mest, eða um 4,4% til viðbótar.

Ritstjórn

Hástökkvarar dagsins á hlutabréfamarkaði hækkuðu á bilinu 0,51 til 0,69%, þar af Festi mest, eða um 0,69%, upp í 145 krónur hvert bréf, í jafnframt mestu viðskiptum dagsins með bréf í einu félagi, eða fyrir 267,4 milljónir króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði á sama tíma um 0,15%, niður í 2.064,45 stig í 983,5 milljóna króna viðskiptum, en þar af lækkaði gengi Icelandair og Reita mest, og er gengi félaganna undir útboðsgengjum félaganna í nýtilkomnu og nýboðuðu hlutafjárútboði þeirra.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 0,60%, í ekki nema 32 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 668 krónur. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Origo, eða um 0,51%, upp í 29,50 krónur, í 38 milljóna króna viðskiptum.

Icelandair 13% undir útboðsgenginu

Mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 4,40%, niður í 0,87 krónur, svo gengi flugfélagsins er komið í 13% undir 1 krónu útboðsgengi hlutabréfa félagsins á dögunum.

Reitir lækkuðu um 2,97%, í 46 milljóna viðskiptum, og fór gengi bréfa félagsins í 42,40 krónur, sem er rétt undir áætluðu 43 króna útboðsgengi félagsins í hlutafjárútboði félagsins dagana 20. til 21. október. Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Eikar, eða um 1,75%, niður í 7,03 krónur, í 18 milljóna króna viðskiptum.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Sjóvá, eða fyrir 141,4 milljónir króna, og lækkaði gengi bréfanna um 0,25%, niður í 20,20 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf TM, eða fyrir 111 milljónir króna, en bréf félagsins lækkuðu um 0,54%, og var lokagengi þeirra 37,0 krónur.

Misvísandi gengisþróun

Gengi krónunnar veiktist gagnvart nokkrum helstu viðskiptamyntum sínum, það er evrunnar, dönsku krónunnar, svissneska frankans og norsku krónunnar, meðan hún styrktist gagnvart Bandaríkjadal, japanska jeninu, og eilítið gagnvart breska pundinu og sænsku krónunni.

Þannig nam styrking evrunnar 0,25% gagnvart krónunni og fæst hún nú á 162,06 krónur, styrking frankans nam 0,15%, í 150,16 krónur, styrking dönsku krónunnar nam 0,27%, í 21,783 krónur og þeirrar norsku nam 0,56%, í 14,917 krónur.

Bandaríkjadalur veiktist um 0,32% gagnvart krónu, í 137,48 krónur, breska pundsins um 0,01%, í 178,44 krónur, japanska jensins um 0,72%, niður í 1,2997 krónur og sænsku krónunnar um 0,03%, niður í 15,472 krónur.

Stikkorð: Marel Úrvalsvísitalan Icelandair TM Nasdaq Festi kauphöll Origo