Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin hátíðleg í 9. sinn dagana 4. - 7. september n.k.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Þar kemur fram að á hátíðinni er lögð áhersla á að fjölskyldan fái notið sín saman og allri finni eitthvað við sitt hæfi.

Dagskráin er viðamikil enda stendur Ljósanótt yfir í fjóra daga en hápunkti sínum nær hún á laugardeginum með árlegri lýsingu Bergsins við Keflavíkina og flugeldasýningu í umsjá Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Sú sýning verður samt ekki sú eina á Ljósanótt.

Af atriðum má nefna fjölbreytta barnadagskrá þar sem fram koma þekktir ávextir úr Ávaxtakörfunni og eitt grænmeti, ungir söngvarar fá að spreyta sig í söngvakeppni barna og vísindasmiðja barna býður spennandi möguleika.

Duushúsin eru í aðalhlutverki á Ljósanótt en þar verður boðið uppá tónlistarsyrpu að venju, hálftíma tónleika sem hver reka annan og hægt að ganga út og inn að vild.

Þar verður opnuð sýning Ilmar Stefánsdóttur undir yfirskriftinni Fjölleikar þar sem finnast hraðar sveiflur, skemmtilegar dýfur og jafnvægiskúnstir í hljómfalli rokkandi rokka og syngjandi vefstóla. Í sýningarrýminu Suðsuðvestur skoða 15 ólíkir einstaklingar Suðurnesin á rannsakandi hátt undir yfirskriftinni „Gæti tafið framkvæmdir á Suðurnesjum" og um allan bæ er fjöldi sýninga, bæði einstaklinga, hópa og félagasamtaka.

Það er næsta víst að flutningur Skessunnar í fjallinu, vinkonu Siggu sem er hugarfóstur Herdísar Egilsdóttur rithöfunds mun vekja mikla eftirtekt og furðu ungu gestanna. Skessan mun flytja í Svartahelli sem er í Grófinni við Smábátahöfnina og heyrst hefur að hún muni fá aðstoð við flutningana hjá vinatröllum úr Eyjum.

Þeir sem vilja hreyfa sig geta tekið þátt í Reykjanesmaraþoni, götubolta, púttmóti eða golfi eða fylgst með spennandi leikjum í körfu kvenna og karla í höfuðvígi körfuknattleiksins.

Nánari upplýsingar eru á www.ljosanott.is