David Blanchflower, sem á sæti í vaxtaákvörðunarnefnd Englandsbanka, segir breska hagkerfið stefna í sársaukafullan samdrátt verði stýrivextir ekki lækkaðir verulega þegar í stað.

Að sögn Blanchflower gætu verið verri tímar fram undan í efnahagsmálum Breta en Bandaríkjamanna og líklegt er að hundruðir þúsunda missi vinnuna.

Blanchflower hefur kosið stýrivaxtalækkun undanfarna 9 mánuði en hefur undanfarið tapað þeim kosningum 8-1, þar sem aðrir meðlimir vaxtaákvörðunarnefndar Englandsbanka eru honum ósammála. Stýrivextir Bretlands voru lækkaðir niður í 5% í apríl en var haldið óbreyttum í maí og júní. Ákvörðun vaxtanefndarinnar fyrir þennan mánuð verður tilkynnt á miðvikudag.

Áhyggjur af vaxandi verðbólgu hafa valdið því að vextir hafa ekki verið lækkaðir að undanförnu. Blanchflower segir að líta verði framhjá skyndilegri hækkun matar- og olíuverðs til skamms tíma og líta á verðbólguþróun næstu 18 mánuði við ákvörðun stýrivaxta, samkvæmt frétt Guardian.