Hlutabréf lækkuðu lítillega á flestum stöðum í Evrópu í dag þrátt fyrir stýrivaxtalækkanir Englandsbanka, Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Svíðþjóðar.

Þannig lækkaði FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, um 0,2% í dag eftir mikla rússíbanaferð. Þannig hafði vístalan um tíma hækkað um 1,8% í dag en aftur á móti lækkað um 2,6% um tíma.

Segja má að námufyrirtæki hafi leitt lækkanir dagsins. Þannig lækkuðu BHP Billiton, Anglo American, Lonmin, Xstrata og Rio Tinto á bilinu 4% - 8,8% í dag.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,1%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,2% en í Sviss hækkaði SMI vísitalan hins vegar um 0,8%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan að vísu um 0,3% eftir að hafa lækkað síðustu tvo daga.

Í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,1% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,9%.