Hlutabréf í Asíu féllu í verði í dag, en MSCI Asia Pacific vísitalan hafði lækkað um eitt prósent rétt fyrir lokun markaða í Tókýó í dag. Allar 10 undirvísitölur hennar lækkuðu. Nikkei vísitalan japanska lækkaði um 1,9%.

Að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar má rekja gengislækkunina í dag til þess að fjárfestar hafi áhyggjur af því að tap tengt bandarískum undirmálslánum sé ekki að fullu komið fram. Samveldisbanki Ástralíu (Commonwealth Bank of Australia) lækkaði mest í verði, eftir að New York Times greindi frá því að Merryll Lynch kynni að greina frá afskriftum upp á 15 milljarða dollara til viðbótar, vegna fyrrgreindra lána. Það er nærri tvöföld fyrri áætlun.