Í Vegvísi Landsbankans er greint frá því að vísitölur á Bandaríkjamarkaði lækkuðu í dag í kjölfar þess að Alcoa birti afkomu þriðja ársfjórðungs. Alcoa var fyrsta félagið í Dow Jones til að birta afkomu fjórðungsins og fréttir um samdrátt í sölu á tímabilinu drógu markaðinn niður. Frekari fregnir urðu til þess að S&P 500 höfðu fallið um 0,3% og Dow Jones um 0,4% um hádegi að bandarískum tíma. Skv. Bloomberg er almennt talið að uppgjör fjórðungsins verði undir meðaltali. Til að mynda sé búist við 0,7% aukningu hagnaðar fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni á þessum fjórðungi samanborið við a.m.k. 10% hækkun undanfarna 20 fjórðunga.

Hækkaði framan af viku
Lækkunin í dag er eftir hækkun á mörkuðum í gær. Fundargerð frá stýrivaxtafundi Seðlabanka Bandaríkjanna síðan 18. september sl. hleypti fjöri í helstu markaði þegar hún var gerð opinber í gær. Markaðir í Evrópu hækkuðu í kjölfar hækkana í Bandaríkjunum og Asíu þar sem fundargerðin slær á áhyggjur af varanlegum samdrætti í Bandaríkjunum vegna ótryggra húsnæðislána. Samt sem áður er orðalag varfærnislegt og mat sérfræðinga að lítið megi út af bregða til að jafnvægið raskist.

Ekki líkur á vaxtalækkun
Skýrendur Bloomberg telja ekki líkur á að stýrivextir í Bandaríkjunum lækki á næsta vaxtaákvörðunardegi sem verður í lok mánaðarins. Samt sem áður sé ekki hægt að útiloka frekari vaxtalækkun. Ákvarðanir velti á horfum í hagkerfinu og hvernig það bregðist við þróun næstu vikna. Í því tilliti sé sérstaklega horft til verðbólgu, matar- og orkukostnaðar heimila og húsnæðismarkaðar.

Umsóknum um húsnæðislán vestanhafs fjölgaði í síðustu viku. Það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist í þrjár vikur. Samkvæmt Bloomberg er líklegt að í tölum um fjölgunina sé vilji Bandaríkjamanna til húsnæðiskaupa ofmetinn, m.a. þar sem ekki sé öruggt að allar umsóknir verði samþykktar.