Kaupendur lóða sem Reykjavíkurborg seldi á árinu 2006 hafa stefnt borginni þar sem hún neitar að taka við lóðum gegn greiðslu. Samgönguráðuneytið úrskurðaði í febrúar að borgin þyrfti að taka við lóðunum og greiða til baka. Tekist er á um málið fyrir dómi.

Reykjavíkurborg hefur ekki viljað fara eftir úrskurðum samgönguráðuneytisins frá því í febrúar á þessu ári og því eru málin nú komin til kasta dómstóla,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson hdl., lögmaður fólks sem keypti lóðir í Úlfarsárdal á árinu 2006 en vill nú skila lóðunum aftur til Reykjavíkurborgar, ekki síst vegna forsendubrests.

Mál fjögurra fjölskyldna sem hafa stefnt Reykjavíkurborg voru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi. Öll fjögur málin eru keimlík og byggja á því að Reykjavíkurborg hafi ekki staðið við sitt hvað varðar uppbyggingu á því svæði þar sem lóðirnar eru. Þar á meðal er uppbygging þjónustu af margvíslegu tagi, skólar, almenningssamgöngur, stofnbrautir og fleira, sem borgin hafði áður auglýst á skipulagi að myndi rísa í hverfinu á tilsettum tíma.

Meðal annars var um þetta fjallað í fréttum sem birtust á vef eigna- og framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, m.a. 24. maí 2007 undir fyrirsögninni: „Hröð uppbygging í Úlfarsárdal.“ Eru þar útlistuð áform um uppbyggingu í dalnum. Við þau hefur ekki verið staðið og byggir stefna þeirra meðal annars á því.

Nánar er fjallað um málið nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .