Flugvéla- og vopnaframleiðandinn Lockheed Martin hefur tilkynnt að hann muni kaupa þyrluframleiðandann Sikorsky fyrir níu milljarða dala. Fjárhæðin jafngildir tæpum 1.225 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá þessu.

Sikorsky er einn fremsti þyrluframleiðandi í heimi og framleiðir meðal annars Black Hawk þyrlurnar sem notaðar eru í hernaði víðs vegar um heiminn. United Technologies, sem er núverandi eigandi Sikorsky, tilkynnti í síðasta mánuði að fyrirtækið yrði selt.

Útgjöld Lockheed Martin vegna viðskiptanna munu í heildina nema 7,1 milljarði dala, en 1,9 milljarðar dala dragast þar frá vegna skattalegra fríðinda.