Gengið hefur verið frá samningum í framhaldi af útboði byggingaréttar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási fyrir 504 milljónir.  Önnur lóðasala í fyrra nam 718 milljónum  og samtals voru því lóðir seldar fyrir rúmar 1.200 milljónir króna sem er yfir væntingum.

Í útboðinu sem lauk síðasta sumar bárust gild tilboð fyrir rúman milljarð. Magnús Ingi Erlingsson, lögfræðingur hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem fer með lóðasölu í Reykjavík,  segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að margar skýringar séu á þessum mun tilboða og seldra lóða. „Menn hætta við af ýmsum ástæðum.  Í sumum tilfellum var fjármögnun ekki klár og einnig gerðu sumir tilboð í margar eignir, en ganga svo aðeins að hluta samþykktra tilboða,“ segir Magnús.

Lóðasala í Reykjavík á síðasta ári var engu að síður  yfir væntingum, að sögn Magnúsar.  Auk útboðsins voru seldar lóðir á föstum verðum fyrir 718 milljónir og því er heildarsala byggingarréttar 2013 að meðtöldum gatnagerðargjöldum rúmar 1.200 milljónir króna eins og áður segir.  Byggingarréttur var seldur fyrir 201 íbúð.  Hlutfall atvinnuhúsnæðis af heildarsölu er 22%.