Valsmenn hf hefur selt tvær lóðir af átta á Hlíðarendasvæðinu sem opnast til bygginga nú þegar neyðarbrautinni hefur verið lokað. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Afrakstur nýttur til byggingar knatthúss

Valsmenn hf er í eigu Knattspyrnufélagsins Vals og 400 stuðningsmanna félagsins. Voru lóðirnar keyptar af tveimur félögum í eigu Sigðurar Sigurgeirssonar í Járnbendingu, en á lóðunum er annars vegar gert ráð fyrir íbúðarhúsi með atvinnustarfssemi á fyrstu hæð og hins vegar íbúðarhúsi. Er gert ráð fyrir að þar geti verið litlar íbúðir fyrir námsmenn.

Á öllum átta lóðunum er gert ráð fyrir að um 600 íbúðir muni rísa en þar verður einnig aðstaða fyrir atvinnustarfssemi. Verður afrakstur sölunnar nýttur til að reisa knatthús við hlið aðalknattspyrnuvallar Vals.

Neyðarbrautinni hefur endanlega verið lokað

„Það er búið að loka flugbrautinni endanlega og allt frágengið í sambandi við það. Önnur seldu lóðanna er alveg tilbúin og búð að koma fyrir jarðvegspúðum. Hin er alveg að verða tilbúin. Nú eru að hefjast framkvæmdir á þriðju lóðinni og verið að setja upp vinnubúðir í vikunni,“ segir Brynjar Harðarsson framkvæmdastjóri Valsmanna hf. í samtali við Morgunblaðið.