Hagur Brims vænkaðist töluvert fyrstu þrjá mánuði ársins miðað við afkomuna á sama tímabili fyrir ári, sem skýrist einna helst af fyrstu loðnuvertíðinni í þrjú ár.

Hagnaður félagsins nam 10,9 milljónum evra, eða 1,7 milljörðum króna miðað við 429 þúsund evrur fyrir ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 19,2 milljónum evra eða um 3 milljörðum króna miðað við 7,7 milljónir evra á sama tímabili fyrir ári.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brims, segir miklu hafa munað um loðnuvertíðina. „Afkoman á fyrsta fjórðungi ársins var góð. Rekstur Brims var stöðugur en miklu skipti að loðnuveiðin gekk vel eftir tveggja ára veiðibann. Loðnuvertíðin var gjöful og mikil verðmæti búin til úr litlum afla þar sem þekking starfsfólks og fjárfestingar undanfarinna ára nýttust vel í þessari verðmætasköpun,“ segir Guðmundur. Þá hafi söluaukning sölufélaga í Asíu numið 21%.

Hins vegar hafi COVID-19 enn áhrif á markaði. „Heimsfaraldurinn hafði áhrif á verð á mörkuðum á botnfiski. Afurðaverð á þorski og ýsu hélt sér en vegna minni eftirspurnar á karfa og ufsa lækkaði verð á þeim tegundum. Nú þegar áhrifin af heimsfaraldrinum minnka vonumst við til að markaðir fyrir sjávarafurðir nái aftur fyrra jafnvægi. Ísland er með jákvæða ímynd í umhverfismálum í sjávarútvegi sem styður við stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum,“ segir Guðmundur.

Handbært fé frá rekstri nam 15 milljónum evra en var en var 21,3 milljónir evra á fyrsta fjórðungi 2020. Fjárfestinga- og fjármögnunarhreyfingar voru óverulegar á fjórðungnum.

Í uppgjörstilkynningu er bent á að endurskipulagning á rekstri botnfiskssviðs standi yfir með tilliti til fjárfestinga í landvinnslu í Norðurgarði og þá sé vinna hafin við að skoða nýja hátækni uppsjávarvinnslu á Vopnafirði.

Í lok mars námu eignir félagsins 115,7 milljörðum króna, skuldir 66,2 milljörðum og eigið fé 49,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall því 43%