*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 23. maí 2018 11:24

Loftleiðir semja við National Geographic

Loftleiðir Icelandic hefur samið við National Geographic Partners ferðaskrifstofuna um leiguflug.

Ritstjórn
Loftleiðir Icelandic er dótturfélag Icelandair Group
Haraldur Guðjónsson

 

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, hefur samið við National Geographic Partners / Global Adrenaline ferðaskrifstofuna um leiguflug með hópa í hágæðaheimsferðum. Flugið hefst undir lok næsta árs og er samningurinn til þriggja ára. Gert er ráð fyrir að tvær Boeing 757 vélar muni að jafnaði sinna ferðum af þessu tagi á næstu árum.

Í heimsferðunum er mikil áhersla lögð á fyrsta flokks þægindi, veitingar og þjónustu. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir Loftleiðiog starfsfólk Icelandair Group. Sérstakar innréttingar hafa verið settar í vélarnar til þess að sinna ferðunum. Flugliðar okkar og matreiðslumeistarar hafa fengið hæstu einkunn hjá farþegum þessara ferða í gegnum tíðina. Orðsporið er því gott sem hefur leitt til þess að mikil eftirspurn er eftir þjónustunni“, segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic.

Boeing 757 vélar félagsins eru sérstaklega útbúnar fyrir aðeins 80 farþega, sem hafa vélina til afnota sem einskonar einkaþotu meðan á heimsferðinni stendur. Hver ferð tekur að meðaltali þrjár vikur, þar sem 5-7 viðkomustaðir vítt og breitt um heiminn eru heimsóttir, og bíður flugvélin á meðan farþegar dvelja þar og skoða sig um.  Flestar ferðirnar hefjast í Bandaríkjunum, en einstaka ferð byrjar í Evrópu og/eða Dubai.