Í dag var undirritaður samningur milli Loftleiða Icelandic, dótturfélags Icelandair Group, og  Yakutia Air Company í sjálfstjórnarlýðveldinu Sakha í Síberíu í Rússlandi um leigu á þriðju Boeing  757-200 farþegaþotunni til félagsins.

Þotan sem um ræðir kemur úr flota áætlunarflugfélagsins Icelandair en vegna versnandi efnahagsástands hefur félagið minnkað framboð.

Icelandair hefur áfram yfirumsjón með viðhaldi þotanna í gegnum viðhaldsþjónustu sína, Icelandair Technical Services. Samningurinn er sá fjórði sem Loftleiðir Icelandic hefur undirritað á stuttum tíma um flugvélaleigu við samstarfsaðila í fjórum heimsálfum.

Heildarverðmæti þessara samninga nemur um 125 milljónum dollara. Um er að ræða leigu á samtals sex þotum, einni Boeing 767-300ER og fimm Boeing 757-200 þotum, og er lengd samninganna frá sex mánaðum til sex ára.

„Samningurinn við Yakutia sýnir þann sveigjanleika sem við búum yfir,“ segir Sigþór Einarsson aðstoðarforstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

„Þegar samdráttur dregur  úr þörf fyrir þotu hjá einu félaginu, í þessu tilfelli Icelandair, nær systurfélagið Loftleiðir Icelandic að koma henni í arðbært verkefni. Það er mikill styrkur fyrir Icelandair Group að vera í viðskiptum við trausta aðila í öllum heimsálfum. Um 75% af tekjum samstæðunnar koma af alþjóðamarkaði, en 25% frá Íslandi,“ segir hann.

„Verkefnastaðan í alþjóðlegri leiguflugsstarfsemi fyrirtækja innan Icelandair Group er góð um  þessar mundir og gjaldeyristekjugrunnur félagsins því traustur. Loftleiðir Icelandic er nú með sjö þotur í verkefnum og áætlanir eru um að bæta þeirri áttundu við snemma á næsta ári. Auk Loftleiða Icelandic eru í alþjóðlegu leiguflugi innan Icelandair Group flugfélögin SmartLynx í Lettlandi, Travel Service í Tékklandi, Bluebird Cargo á Íslandi,“  segir Sigþór.

Guðni Hreinsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic segir í tilkynningunni: „Við núverandi markaðsaðstæður eykst eftirspurn bæði eftir svonefndri þurrleigu, þar sem flugvél og viðhald eru leigð út, og eftir blautleigu, þar sem flugvél, viðhald og áhafnir eru leigð út. Ástæða þess er að flugfélög þurfa að breyta samsetningu á flugflota sínum tímabundið og vilja ekki leggja út í stóra langtímafjárfestingu, einkum þar sem lánsfé til slíkra verkefna er af skornum skammti. Leiga á flugvélum ásamt tengdri þjónustu er því hagkvæmur kostur og þess njóta Loftleidir Icelandic og Icelandair Group nú. Við búum einnig að því að þykja traustur og  góður samstarfsaðili. Þetta er árangur sem byggir á þrotlausri vinnu og uppbyggingarstarfi liðinna ára.“

Auk samningsins semundirritaður var í dag hafa Loftleiðir Icelandic gengið frá þremur nýjum leigusamningum um verkefni víða um heim að undanförnu. Eftirfarandi er yfirlit um alla fjóra samningana:

Aukin umsvif Lofleiða Icelandic og Icelandair Group í Rússlandi.

Undirritaður hefur verið eigusamningur umþriðju Boeing 757-200 þotuna til Yakutia Air Company í sjálfsstjórnarlýðveldinu Sakha í Síberíu. Flugvélin verður afhent í byrjun desember á þessu ári og  stendur verkefnið til ársins 2013. Allar þrjár þoturnar eru leigðar með viðhaldi, sem Icelandair Technical Services hefur umsjón með. Ennfremur hafa samningar um tvær fyrri þoturnar verið framlengdir til 2012 og 2014.

Samningur um breiðþotu á Evrópumarkað

Eins og fram hefur komið mun Boeing 767-300ER breiðþota Loftleiða Icelandic hefja flug fyrir flugfélagið Travel Service, dótturfélag Icelandair Group, frá ýmsum borgumSkandinavíu og Prag í Tékklandi til Thailands og eyja í Karabíska hafinu um miðjan nóvember. Verkefnið er mannað með íslenskum flugmönnum og stendur fram til vors 2009.

Framhald í Suður-Ameríku.

Einn traustasti samstarfsaðili Loftleiða Icelandic undanfarin ár hefur verið flugfélagið Santa Barbara Airlines í Venesúela. Loftleiðir og Santa Barbara Airlines hafa undirritað samning um framlengingu á núgildandi samningi um rekstur Boeing 757-200 þotu, með íslenskum flugmönnum og viðhaldi. Einkum mun flogið frá Caracas í Venezuela til áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu og stendur þessi samningur til vors 2009.

Kraftmikill rekstur í Eyjaálfu

Loftleiðir Icelandic hafa undirritað nýjan samning við Air Niugini í Papua Nýju Gíneu um leigu á einni Boeing 757-200 þotu ásamt viðhaldi til þriggja ára, eða fram til ársins 2012. Þessi samningur kemur í kjölfar samstarfs fyrirtækjanna undanfarið ár, en Air Niugini hefur leigt tvær þotur af Loftleiðum og hafa þær að hluta verið mannaðar af íslenskum flugmönnum.