Krafist hefur verið lögbanns á að Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express, notfæri sér trúnaðarupplýsingar frá félaginu til að vinna að stofnun annars fyrirtækis í flugrekstri. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.

Haft er eftir lögmanni Iceland Express (ÍE) að Matthíasi hafi verið sagt upp störfum fyrir að fegra bókhald félagsins. Um svo grófa rangfærslu bókhalds hafi verið að ræða að stjórn félagsins hafi ekki átt annan kost en leysa hann frá störfum þegar í stað.

Í lögbannskröfunni kemur fram að Matthías megi ekki fara í samkeppni við ÍE í tvö ár eftir uppsagnarfrest og að í þrjú ár megi hann ekki hagnýta sér trúnaðarupplýsingar sem hann hafði aðgang að sem forstjóri. Þá segir að í ljós hafi komið að Matthías hafi í það minnsta frá því hann var leystur frá störfum unnið að stofnun félags sem m.a. ætli að standa að áætlunarflugi til og frá Íslandi og er látið að því liggja að það sé nýtt félag í eigu Skúla Mogensen. Fréttablaðið náði ekki tali af Matthíasi við vinnslu fréttarinnar.