Tuttugu starfsmönnum Íslandsbanka var sagt upp störfum hjá bankanum í vikunni. Þetta er í annað skipti á haustmánuðum þessa árs sem bankinn fækkar í hópi starfsfólks en það var síðast gert í september. Framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) segir að verið sé að fara svig við lög um hópuppsagnir.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir við blaðið að uppsagnirnar hafi verið liður í hagræðingaraðgerðum innan bankans. „Uppsagnirnar voru víðsvegar í starfsemi bankans en meirihluti starfsfólksins starfaði í höfuðstöðvunum. Aðgerðin er í samræmi við breytingar á bankaþjónustu og skipulagi sem breytist í samræmi við það,“ segir Birna.

„Það hefur verið endalaust tal um hagræðingu og að auka arðsemina. Það hefur komið krafa um það frá ríkinu og bankarnir telja bestu leiðina til þess vera að segja upp starfsfólki. Ég tel að það sé komið að þolmörkum þar og rétt að skoða aðrar leiðir,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF.

Að sögn Friðberts hefur árið í ár verið það langversta fyrir félagsmenn SSF frá hrunárinu 2008. Þá misstu um 700 manns vinnuna á einu bretti. „Það hefur bara bæst í síðan þá. Nú eru um 2.000 starfsmenn eftir þar sem áður voru 4.500. Á síðustu fjórum árum hefur starfsfólki verið fækkað um rúmlega 500,“ segir Friðbert.

Í ár hefur Arion banki fækkað ársverkum um 102 og Landsbankinn um 16 eftir að hafa fækkað þeim um 78 í fyrra. Af þeim 90 starfsmönnum sem lokið hafa störfum hjá Íslandsbanka á árinu var um helmingi sagt upp störfum. Að mati Friðberts er tímabært að endurskoða lög sem gilda um hópuppsagnir.

„Þau lög taka til uppsagna þegar þrjátíu eða fleiri er sagt upp í einu. Það segir sig sjálft að hér eru menn aðeins að leika á þær reglur þegar tuttugu er sagt upp í september og öðru eins í nóvember. Ef aðgerðirnar hefðu verið framkvæmdar samtímis hefði þurft að tilkynna þær,“ segir Friðbert. Málið hefur verið til skoðunar hjá lögmanni SSF sem og ASÍ. „Við teljum að Evróputilskipunin hafi ekki verið innleidd með réttum hætti. Ef farið er á svig við lögin þá fylgir því engin hegning. Við lestur á tilskipuninni, sem og lögum í löndum í kring, kemur í ljós að ekki var staðið fullkomlega rétt að innleiðingunni hér. Við munum senda félagsmálaráðherra bréf þessa efnis á næstunni því eins og málin eru nú þá eru lögin ekki pappírsins virði.“

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .