Í yfirlýsingu frá útgáfufélaginu Birtingi er þeim tilmælum beint til Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns að hann íhugi að biðja starfsmenn útgáfunnar afsökunar á þeim ummælum sínum að þeir væru síbrotamenn.

„Að öðrum kosti hlýtur að koma til álita að siðanefnd lögmannafélagsins fái að taka afstöðu til þess hvort lögmaðurinn sé sjálfur síbrotamaður."

Í yfirlýsingunni, sem er undirrituð af Elínu G. Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Birtings, segir jafnframt að ef blaðamenn Birtings séu síbrotamenn hljóti Vilhjálmur að teljast eitthvað meira en bara síbrotamaður „svo ekki sé minnst á aðrar og fyrri yfirsjónir lögmannsins sem ekki sérstaklega verða raktar hér."

Forsaga málsins er sú að í Fréttablaðinu 21. ágúst sl. var greint frá því að fjölskylda í Sandgerði hefði ákveðið að höfða mál á hendur ritstjóra tímaritsins Vikunnar vegna ummæla sem amma stúlkubarns lét falla í tímaritinu.

Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Vilhjálmi, lögmanni fjölskyldunnar, að byggt verði á því að útgáfufélagið Birtingur og blaðamenn þess væru síbrotamenn á þessu sviði í ljósi þess að hann hefði unnið fimm meiðyrðamál gegn félaginu og starfsmönnum þess.

„Þessi ummæli lætur lögmaðurinn falla þrátt fyrir að honum sé vel kunnugt um þá staðreynd að útgefandi og starfsmenn blaða og tímarita bera lögum samkvæmt hlutlæga ábyrgð, þ.e.a ábyrgð án sakar, á öllu því sem birt er á prenti," segir í yfirlýsingunni.

Þá sé lögmanninum vel kunnugt um að þau mál sem hann vísi til séu eins ólík og þau séu mörg.