Frá og með næstu viku munu lögmenn þurfa að sitja námskeið til að fá leyfi til að selja fasteignir. Þetta er vegna breytinga á lögum um sölu á fasteignum og skipum sem gera ráð fyrir að lögmenn öðlist ekki sjálfkrafa leyfi til að selja fasteignir, en vb.is greindi fyrst frá málinu þann 9. maí síðastliðinn.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að annríki hafi verið hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að margir lögmenn hafi sótt um að fá útgefið leyfi til fasteignasölu áður en kröfunum verður breytt. Lögmenn hafa svo áratugum skiptir ekki þurft að sækja sér sérstök réttindi til fasteignasölu, en Grétar Jónsson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir að lagabreytingin sé nauðsynleg til að tryggja öryggi neytenda.

„Markmið breytinganna er að tryggja mun ríkari neytendavernd. Þetta er ein stærsta neytendalöggjöf landsins. Nú er verulega þrengt að svokölluðum sölumönnum á fasteignasölum. Þeir munu aðeins geta sinnt broti af þeim störfum sem þeir hafa áður sinnt. Nýju lögin gera ráð fyrir að löggiltir fasteignasalar sinni nánast öllum störfum á fasteignasölum," er haft eftir Grétari.

Lögmannafélag Íslands lagðist harðlega gegn þessum lagabreytingum.