Ríkislögreglustjóri hefur í undirbúningi greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þar á meðal vopnum. Þetta kemur fram í skriflegu svari hans við fyrirspurn fréttastofu RÚV .

Greint hefur verið frá því að Landhelgisgæslan hafi skilað vopnum sem hún þáði frá norska hernum. Fréttastofa RÚV sendi í kjölfarið fyrirspurn til Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra, þar sem spurt var meðal annars hvort þörf hefði verið á byssunum fyrst ákvörðun hefði verið tekin um að skila þeim.

Í svari Jóns kemur fram að sú ákvörðun breyti því ekki að þörf lögreglunnar á vopnum sé óbreytt og hún hafi í raun aukist. Segir hann að embættið hafi í undirbúningi greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þar á meðal vopnum. Fram hafi komið að viðbúnaðargeta almennu lögreglunnar varðandi vopnamál sé óforsvaranleg, þar sem búnaður sé úreltur og af takmörkuðu magni auk þess sem þjálfun sé algjörlega ófullnægjandi.