Bandaríska byggingavörusmásalinn Lowe´s birti í dag uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung og er það nokkuð betra en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Hagnaður félagsins var 938 milljónir Bandaríkjadala (um 77 milljarðar ísl.kr.), sem gerir um 64 cent á hvern hlut. Hagnaður félagsins á sama tíma í fyrra var rétt rúmlega 1 milljarður dala eða um 67 cent á hvern hlut.

Eins og fyrr segir er þetta umfram væntingar en greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar höfðu gert ráð fyrir að hagnaður félagsins yrði um 56 cent á hvern hlut.

Þá var hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs um 607 milljónir dala eða um 41 cent á hvern hlut og var það fjórði ársfjórðungurinn í röð sem hagnaður félagsins dróst saman.

Sumarið kemur engu að síður betur út en fyrirfram hafði verið vonað. Bloomberg hefur eftir viðmælendum sínum að svo virðist sem húseigendur hafi notað þá skattaafslætti sem alríkisstjórn Bandaríkjanna hefur veitt almenningi undanfarna mánuði til að dytta að húsum sínum í sumar.

Heildarsala Lowe´s var á öðrum ársfjórðungi um 14,5 milljarðar Bandaríkjadala og jókst um 2,4% milli ársfjórðunga.

Stórum verkefnum fækkar

Sala í þeim verslunum sem hafa verið opnar í lengur en eitt ár hefur þó dregist saman um 5,3% en samkvæmt frétt Bloomberg hefur „stórum“ verkefnum fækkað verulega og því minni sala, til dæmis á eldhús- og baðinnréttingum.

Sala á garðyrkjuvörum og verkfærum jókst þó töluvert í sumar, umfram væntingar félagsins.

Viðmælandi Reuters fréttastofunnar segir uppgjör annars ársfjórðungs ekki alltaf gefa rétt mynd af stöðu byggingarvörusmásala þar sem fólk noti sumarið til að bæði dytta að húsum sínum og eins til að rækta garðinn sinn. Hins vegar þurfi að fylgjast vel með félögunum á þriðja ársfjórðungi til að sjá hvort almenningur haldi áfram að endurnýja og bæta hús sín en sala byggingarvörusmásala þykir oft gefa góða mynd af fjárhag almennings.

Spá fyrir þriðja ársfjórðung

Þá gerir Lowe‘s ráð fyrir að hagnaður fyrir þriðja ársfjórðung verði um 27 – 31 cent á hvern hlut en hagnaður félagsins fyrir árið í heild verði á bilinu 1,45 – 1,55 dalir.

Greiningaraðilar á vegum Bloomberg hafa gert ráð fyrir að hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi verði 33 cent á hlut en heildarhagnaður fyrir árið verði 1,5 dalir.

Félagið hefur hækkað um 2% það sem af er degi á mörkuðum í New York en helsti samkeppnisaðilinn, Home Depot mun kynna uppgjör sitt á morgun.