Seðlabankinn virðist draga takmarkaðan lærdóm af framkvæmd peningastefnunnar á þenslutímanum samkvæmt grein í rafrænu fréttabréfi GAM Management. Tilefni skrifanna er nýafstaðinn ársfundur Seðlabankans þar sem Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fór yfir stöðu efnahagsmála.

„Útflutningur bankans á háum vöxtum með hávaxtastefnu sinni og ásókn hans í að fá hingað til lands ódýrt erlent lánsfé í formi vaxtamunaviðskipta sem leiddu til alltof mikillar styrkingar á íslensku krónunni var mjög stór þáttur í því að valda stórkostlegu ójafnvægi í íslensku hagkerfi sem gat ekki staðist til lengdar," segir í fréttabréfi GAMMA.

„Seðlabankinn virðist draga takmarkaðan lærdóm af framkvæmd peningastefnunnar á ofþenslutímanum og í aðdraganda fjármálakreppunnar, heldur virðist ætla að endurtaka söguna aftur þrátt fyrir að Már segi að það standi „einnig til að endurskoða peningastefnuna“. Spurning er hvort það þurfi virkilega að rifja upp hver hannaði peningastefnuna sem Seðlabankinn hefur verið að framfylgja?," er spurt.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra fór hörðum orðum um þá sem komu að stjórn peningamála í fortíðinni. „Gera þarf skýr skil milli fortíðar og framtíðar. Nýir stjórnendur endurreists Seðlabanka þurfa ekki að svara fyrir gerðir forvera sinna en þeir þurfa að sýna með óyggjandi hætti fram á að þeir skilji hvað fór úrskeiðis á árum áður og að þeir muni sjálfir fara allt öðru vísi að," sagði Gylfi.