Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á skuldabréf á um 40 fyrirtæki  en við uppgjör ársreiknings lagði sjóðurinn til hliðar 20 milljarða króna varúðarniðurfærslu vegna skuldabréfa. Í viðtali við Viðskiptablaðið, sem kom út í gær, segist framkvæmdastjóri sjóðsins hafa áhyggjur af því hvernig forsendur að baki skuldabréfaútgáfu félaga hafa breyst.

"Því er ekki að neita að í röðum lífeyrissjóðanna gætir nokkurrar óánægju með þetta. Í þeim tilfellum er um að ræða skuldabréf sem gefin voru út fyrir nokkrum árum á fyrirtæki eða eignarhaldsfélög sem á þeim tíma voru með sterka eiginfjárstöðu. Skuldabréfin voru þá gefin út á móðurfélagið en síðan hefur verið gerð breyting á fyrirkomulagi þessara félaga og stofnað undir þeim einhver dótturfélög og lítið greiðsluflæði hefur komið upp í móðurfélagið sem í reynd hefur gert skuldabréfin verðminni," sagði Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Að sögn Hauks mun sjóðurinn skoða alla þætti er tengjast innheimtu bréfanna en LSR átti skuldabréf á um 40 fyrirtæki.

Þess má geta að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins boðar til fundar með sjóðfélögum, miðvikudaginn 15. apríl. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica hóteli að Suðurlandsbraut 2, Reykjavík og hefst hann kl. 16.30.