Eins og sakir standa núna er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stærsti hluthafinn í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone. Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Framtakssjóður Íslands selt 19,7% hlut sinn í félaginu og keypti LSR 8,0% af þeim hlut.

Er eignarhlutur LSR í félaginu því 12,5% og er sjóðurinn því stærsti hluthafinn miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Hafa ber þó í huga að enn á eftir að koma í ljós hver keypti þau 11,7% sem eftir standa af eignarhlut Framtakssjóðsins. Röð stærstu hluthafa á því líklega eftir að breytast.

Næstur í röð stærstu hluthafa er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 12,3%, MP banki með 5,7% og Íslandsbanki með 4,5%. Ursus ehf, félag Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, á 3,1% í Fjarskiptum.