Þýska flugfélagið Lufthansa hefur aflýst um 7.100 flugferðum í mars vegna minni eftirspurnar eftir flugi og vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í frétt Reuters . Aflýst flug ná til allra flugfélaga innan samsteypunnar sem inniheldur einnig Swiss International Air Lines og Austrian Airlines. Þá greindi félagið einnig frá því að dregið yrði úr flugframboði um 25%.

Meðal þeirra fluga sem hafa verið aflýst eru á fjölförnum leiðum til og frá Þýskalandi en einnig hefur verið dregið verulega úr flugum til Ítalíu. Þá hefur öllum flugum til Ísrael verið aflýst til 28. mars næstkomandi en stjórnvöld í landinu gáfu það út í gær að farþegar frá Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Austurríki og Sviss ættu að fara í heimasóttkví. Þá verið ríkisborgurum frá þessum löndum ekki hleypt inn í landið nema þeir geti sýnt fram á að þeir hafi gert ráðstafanir um sóttkví.

Aðgerðir Lufthansa, sem er annað stærsta flugfélag Evrópu, koma í kjölfarið á því að í gær ákvað félagið að kyrrsetja 150 af þeim 750 vélum sem eru í flota félagsins. Líkt og önnur flugfélög hefur hlutabréfaverð Lufthansa lækkað töluvert eða um ríflega 22% frá því 21. febrúar. Þar af nemur lækkun dagsins í dag 5,5%