Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, staðfestir að svokallaðir lukkuriddarar hafi sótt á fundi hans þegar hann gegndi embætti ráðherra.

Hann segir í bók sinni Steingrímur J: Frá hruni og heim að hann hafi lagt sig fram um að hitta þá sem óskuðu eftir fundi með sér. „Ég var mjög áhugasamur um alla sem vildu fjárfesta á Íslandi og átti viðtöl og fundi með ótal fjárfestum. Margir þeirra voru lukkuriddarar en þarna var líka alvöru fólk,“ segir Steingrímur meðal annars í bókinni.

Þeir Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson fjölluðu um hina svokölluðu lukkuriddara í bók sinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun, eins og VB.is hefur greint frá. Bók þeirra kom út seint í ágúst síðastliðnum. Þetta hafi verið menn sem hafi átt það sameiginlegt að lofa upp í ermina á sér án þess að geta staðið við stóru orðin þegar á hólminn var komið.

Einn þeirra var útvarpsmaðurinn Heimir Karlsson á Bylgjunni en samkvæmt þeim Magnúsi og Þórði fundaði hann með Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra, árið 2009 sem fulltrúi erlends viðskiptamanns sem vildi fjárfesta hér. Fram kom kynningu sem Heimir hélt fyrir ráðherra að hinn erlendi fjárfestir væri svo ríkur að stjórnvöld gætu afþakkað aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.