Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, segir það munu hafa skelfilegar afleiðingar á Evrópu ef Grikkland fær að yfirgefa evrusamstarfið tímabundið til að laga sín mál.

Þjóðverjar hafa viðrað þær hugmyndir að Grikkland gæti haft gott af því að taka sér fimm ára hlé frá evrunni ef þarlend stjórnvöld samþykkja ekki þau skilyrði sem sett eru fyrir neyðarláni. Asselborn segir það vera slæma hugmynd.

„Það yrði banvænt fyrir orðspor Þýskalands í Evrópusambandinu og heiminum öllum ef Berlín nýtir ekki tækifærið sem fylgir nýjum hugmyndum Grikklands,“ sagði Asselborn við Suddeutche Zeitung .

„Ef Þýskaland ýtir Grikklandi úr evrunni mun það búa til árekstra við Frakkland. Það yrði skelfilegt fyrir Evrópu alla.“