Ítalski sólgleraugnarisinn Luxottica hefur hrunið allverulega á hlutabréfamörkuðum í dag. Ástæðan er einna helst sú að Adil Khan, einn tveggja framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hefði sagt upp störfum. Hann er sá þriðji til að segja upp starfinu á 18 mánaða tímabili.

Stofnandi fyrirtækisins, Leonardo Del Vecchio, hefur þá tekið við stjórninni á meðan. Vecchio er 80 ára gamall og fer með meirihlutaeign í félaginu. Mögulegt er að fjárfestar hafa áhyggjur af getu hans til að stýra fyrirtækinu, en gengi bréfa Luxottica hefur hrunið um heil 8% á hlutabréfamörkuðum í dag.

Del Vecchio stofnaði félagið árið 1961, en þá framleiddi það gleraugu fyrir stærri fyrirtæki. Síðar meir hóf félagið framleiðslu á eigin gleraugnalínum, auk þess sem það hóf samstarf við tískumerki á borð við Chanel og Prada.  Félagið fer með meirihlutaeign í gleraugnamerkjum á borð við Sunglass Hut, Ray Ban, Oakley og Lenscrafters.