Lyf og heilsa hefur keypt rekstur verslunar Össurar hf. í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut. Með sölunni á versluninni hefur Össur hf. dregið sig út úr öllum rekstri á innanlandsmarkaði sem ekki tengist kjarnastarfsemi félagsins. Lyf og heilsa tekur yfir reksturinn á næstu dögum ásamt þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á. Mikilvægur þjónustuþáttur í versluninni er göngugreining og býður nú Lyf og heilsa upp á slíka greiningu á fjórum stöðum, í Orkuhúsinu, hjá Lyf og heilsu í Keflavík og á Selfossi og í Apótekaranum á Akureyri.

Hrund Rudolfsdóttir, framkvæmdastjóri Lyf og heilsu, segir að markmið fyrirtækisins sé að bæta almenna heilsu landsmanna og stoðkerfið eigi stóran þátt í vellíðan fólks. "Smásala er okkar sérsvið, Össur framleiðir hátæknivörur og hagsmunir fyrirtækjanna fara því vel saman með þessum samningum."

Samstarf ýmissa aðila í heilbrigðisstétt, svo sem bæklunarlækna, sjúkraþjálfara og röntgensérfræðinga gerir það að verkum að í Orkuhúsinu er hægt að bjóða viðskiptavinum með stoðkerfisvandamál alhliða þjónustu á einum stað. Össur mun áfram starfrækja þar stoðtækjaverkstæði og þjónustu við stoðtækjanotendur. Lyf og heilsa stefnir að því að styrkja verslunina þar enn frekar og gera hana að miðdepli þeirrar öflugu heilsumiðstöðvar sem Orkuhúsið við Suðurlandsbraut er orðið.
Stoðtækjafræðingar, sjúkraþjálfarar og annað sérhæft starfsfólk veitir faglega ráðgjöf varðandi val á vörum, auk þess sem sérstök áhersla er lögð á ráðgjöf til íþróttaiðkenda og aðstoð vegna meiðsla. Helstu vörur sem boðið er upp á eru tengdar stoðkerfi og heilsu fólks svo sem spelkur, hlífar, meðgöngubelti og sáraumbúðir auk fjölbreytts úrvals af íþróttaskóm, gönguskóm, heilsuskófatnaði og vörum til útivistar.

Göngugreining er mikilvægur þjónustuþáttur í versluninni. Við göngugreiningu vinna sjúkraþjálfarar að meðferð vandamála sem tengjast stoð- og hreyfikerfi líkamans. Stuðst er við fullkominn, tölvustýrðan greiningarbúnað og veittar úrlausnir sem geta verið ráðgjöf varðandi skó eða sértækari lausnir svo sem innlegg, hæla, skóbreytingar, bæklunarskó eða sérsmíðaða skó.