Af 33 Evrópulöndum leggja aðeins sjö ríki hæsta þrep virðisaukaskatts á lyfseðilsskyld lyf. Þetta kemur fram í grein Jakobs Fals Garðarssonar, framkvæmdastjóra Frumtaka, sem eru hagsmunasamtök lyfjaframleiðenda.

„Langflest ríkjanna leggja á vsk. í neðri þrepum, á bilinu 1,5% til 15%, og lönd eins og Bretland, Svíþjóð og Malta leggja alls engan virðisaukaskatt á lyfin," skrifar Jakob Falur í grein í Morgunblaðinu í gær.  „Á þetta hafa Frumtök, samtök framleiðenda frumlyfja á Íslandi, áður bent. Það er því ástæða til að fagna þeirri víðtæku áætlun sem fjármálaráðherra hefur kynnt um endurskoðun virðisaukaskattskerfisins, sem m.a. hefur það að markmiði að minnka bilið milli efri skattþrepanna, og þá væntanlega með því að lækka efsta þrepið og fækka undanþágum í kerfinu."

„Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er í dag að mestu undanþegin virðisaukaskatti og er almenn sátt um þá tilhögun. Á hinn bóginn má spyrja hvers vegna stjórnvöld skattleggja lyfseðilsskyld lyf eins og munaðarvöru, lyf sem fólk þarf nauðsynlega á að halda til að halda heilsu eða jafnvel lífi. Lyf eru ekki munaðarvara. Að sama skapi er með nokkrum ólíkindum hvað er undanþegið virðisaukaskatti, t.d. ýmislegt tengt ferðaþjónustu eins og hvalaskoðun og laxveiði, sem seint flokkast sem lífsnauðsynjar."

„Það er brýnt að endurskoða virðisaukaskattskerfið frá grunni og gera það í senn einfaldara, gegnsærra og réttlátara. Við þá vinnu hlýtur að koma til endurskoðunar skattlagning lyfseðilsskyldra lyfja sem eins og áður segir er sú hæsta í Evrópu, ef ekki heiminum. Einnig væri við hæfi að hafa í huga raunverulega þýðingu orðanna munaður og lífsnauðsyn og skattleggja vöru og þjónustu í samræmi við það"