Þrátt fyrir þær jákvæðu fréttir að öll stóru lánshæfismatsfyrirtækin hafi að undanförnu hækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins eru hættumerki til staðar. Hækkunin byggir á þeirri lykilforsendu að þeir fjámunir sem falla til við afnám hafta verði nýttir til að bæta skuldastöðu ríkissjóðs en ekki til þensluaukandi útgjalda. Auk þess gætu áhrif kjarasamninga á verðbólgu grafið undan lánshæfismatinu á komandi árum. Þetta segir Viðskiptaráð Íslands í nýrri umfjöllun á vefsíðu sinni.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs síðasta föstudag, en fyrirtækið Standard & Poor's, Moody's og Fitch hafa einnig hækkað einkunn ríkissjóðs nýlega. Viðskiptaráð segir að meginorsök þessara hækkana sé ný áætlun stjórnvalda um afnám hafta, sem sé bæði ítarleg og trúverðug. Þrátt fyrir það sé ástæða til að fara varlega.

Verkefninu hefur ekki verið sinnt

„Samkvæmt Seðlabanka Íslands gætir þegar þensluáhrifa í íslensku hagkerfi og mun svo áfram vera á næstu árum. Á slíkum tímum er lykilverkefni stjórnvalda að draga úr opinberum útgjöldum og greiða niður skuldir. Þannig skapar hið opinbera heilbrigt mótvægi gagnvart þeirri útgjaldaaukningu sem á sér stað hjá einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir í umfjöllun Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir vísbendingar um að þessu verkefni hafi ekki verið sinnt undanfarið. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2014 hafi útgjöld ríkissjóðs aukist um 13 milljarða króna á milli ára. Frekari vöxtur opinberra útgjalda á þessum tímapunkti muni leiða til aukinnar þenslu og verri skuldastöðu en ella sem sé líklegt til að lækka lánshæfi ríkissjóðs á ný.

Betra lánshæfi dregur úr vaxtakostnaði allra

„Lánshæfi ríkissjóðs hefur leiðandi áhrif á vaxtakjör innlendra aðila. Þannig hefur hærri einkunn ríkissjóðs þegar leitt til betra lánshæfis íslensku bankanna og Landsvirkjunar. Bætt lánshæfi bankanna skilar sér í lægri vaxtakostnaði fyrirtækja og heimila,“ segir Viðskiptaráð.

Þá sé bætt lánshæfi Landsvirkjunar til þess fallið að auka verðmæti félagsins sem skili almenningi ávinningi sem eiganda fyrirtækisins í gegnum íslenska ríkið. Hærra lánshæfismat hafi því jákvæð áhrif á lífskjör hér á landi.

„Með framlagningu trúverðugrar og vel ígrundaðrar afnámsáætlunar hafa stjórnvöld stigið veigamikið jákvætt skref í átt til bættra lífskjara hérlendis á komandi árum. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að halda áfram á þessari braut og herða tökin í rekstri hins opinbera með því að draga úr útgjöldum og greiða niður skuldir á komandi misserum,“ segir Viðskiptaráð að lokum.