Hæstiréttur sýknaði í dag fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu af kröfum Smákrana vegna fjármögnunarleigusamnings. Smákranar stefndu lýsingu og féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þeim í hag en Hæsti réttur hefur nú snúið dóminum við. Í dóminum kemur fram að um sé að ræða leigusamning, eins og Lýsing hélt fram, en ekki lánssamning.

Áður hafði Hæstiréttur dæmt að fjármögnunarleigusamningar sem Kraftvélaleigan gerði við Glitni banka í aðdraganda bankahrunsins hafi verið ólöglegir. Lýsing hélt því aftur á móti fram að ekki væri um að ræða sambærilega samninga. Hæstiréttur tekur undir þetta sjónarmið í dóminum og tekur fram að ýmis atriði séu frábrugðin.

Í yfirlýsingu Lýsingar vegna dómsins kemur fram að fyrirtækið fagni niðurstöðu dómsins og að óvissu sem ríkt hafi hjá viðskiptabinum um lögmæti fjármögnunarleigusamninga þeirra við félagið hafi verið aflétt. Einnig segir í yfirlýsingunni að dómurinn staðfesti það mat fyrirtækisins að fjármögnunarleigusamningar félagsins falli ekki undir bann vaxtalaga við gengistryggingu lána.