Fyrirtækjagreining Arion banka mælir með því að fjárfestar kaupi hlutabréf fasteignafélagsins Regins en gert er ráð fyrir því í nýju verðmati að gengi bréfa félagsins muni hækka um 12% frá síðasta dagslokagengi og fara í 12 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa Regins hefur hækkað um 1,87% það sem af er degi í tæplega 83 milljóna króna viðskiptum og stendur gengi þeirra nú í 10,9 krónum á hlut. Það hefur aðeins einu sinni áður verið hærra. Hlutabréf Regins voru skráð á markað í júlí síðastliðnum og hefur það hækkað um 33% frá útboði.

Í verðmatinu segir m.a. að tekið sé mið af auknum skuldum vegna endurfjármögnunar Smáralindar og Egilshallar, bættrar sjóðsstöðu og fjárfestingar í fasteigninni sem hýsir Hótel KEA á Akureyri. Þá er tekið tillit til bættra lánskjara félagsins en áður. Fyrirtækjagreiningin telur líklegt að fasteignafélagið nýti fjármagnið til að kaupa KEA-húsið fyrir norðan.

Kostir sameiningar

Fyrirtækjagreiningin segir fasteignafélagið stillt á frekari vöxt en bendir á að sjá megi fyrir sér að sameina Reginn annað hvort við fasteignasjóði eða önnur fasteignafélög, t.d. við Eik, sem reiknað er með að verði skráð á markað. Með því móti mætti lækka kostnaðarhlutföll og leysa úr læðingi aðra þætti vegna stærðarhagkvæmni.