Danska flutningasamsteypan A.P. Møller-Maersk A/S sagði í dag frá áætlunum sínum um að segja upp 4.000 manns úr starfsliði sínu.

Þessi hrina uppsagna, sem mun ljúka fyrir árið 2017, er liður í uppstokkun á rekstri fyrirtækisins. Dregið verður samhliða úr afkastagetu og fjárfestingum.

Uppsagnirnar verða í landflota fyrirtækisins, sem telur einhver 23.000 manns. Í staðinn mun félagið koma upp sjálfvirkum og stafrænum kerfum.

Áætlar fyrirtækið þá að draga úr kostnaði við stýringu og umsjón um því sem nemur 250 milljónum dala á næstu tveimur árum, eða 32,2 milljarða íslenskra króna.

Allt er þetta gert í sparnaðarskyni vegna stöðu markaðarins sem er erfiður um þessar mundir. Hagnaðarspár Maersk voru lækkaðar úr 2,2 milljörðum dala niður æi 1,6 milljarð í síðasta mánuði.