Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo hefur alla tíð ætlað sér að leigja land Grímsstaða á Fjöllum og byggja þar upp í opnu ferli í gegnum félag sem skráð er hér á landi.

„Magma-leið kom aldrei greina og gerir ekki enn. Okkur var ljóst að þetta fyrirtæki yrði aðeins rekið í nafni íslensk fyrirtækis eftir íslenskum lögum,“ segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun á Íslandi. Hann fer nú yfir fyrirhuguð kaup og framkvæmdir Huang Nubo og félags hans á Grímsstöðum á Fjöllum á fyrirlestraröð Viðskiptafræðideildar og Konfúsíusarstofnunar í Háskóla Íslands. Halldór segir margar sögur á kreiki um framkvæmdir félagsins. Sumt sé rétt en annað rangt.

Halldór fór yfir það að tillögur liggi fyrir að uppbyggingu á Grímsstöðum og því hvernig rekstur gæti þar orðið. Búið er að stofna tvö félög utan um uppbygginguna og reksturinn, sem muni aðeins ná yfir 300 hektara. Félög Nubo munu ekki hafa nein yfirráð yfir náttúruauðlindum á svæðinu.

Á meðal þess sem liggur á teikniborðinu er 100 herbergja 4-5 stjörnu hótel og um 25 hús með samtals öðrum 100 herbergjum. Áætlaður kostnaður er á bilinu 10 til 16 milljarðar króna. Reiknað er með því að starfsmenn verði um tveir á hvert herbergi, fjögur hundruð í heildina. Þá hefur félagið áform um að byggja allt að 300 herbergja hótel á höfuðborgarsvæðinu og fara í útrás til hinna Norðurlandanna.

Halldór sagði að til viðbótar við 400 störf á hótelrekstrinum á Grímsstöðum megi reikna með því að óbein störf verði fjölmörg.