Magma Energy Sweden A.B., dótturfélag kanadíska félagsins Magma Energy, hefur lokið við fjármögnun á hlut  í HS Orku. Félagið greiddi rúmlega 3,8 milljarða króna (32 milljónir dollara) fyrir 38% prósent hlut í félaginu, sem áður var í eigu Geysis Green Energy,  samkvæmt tilkynningu sem birt var á vef kauphallarinnar í Kanada og á vef félagsins í dag.

Magma heldur nú á 84,21% eignarhlut í HS Orka, en tilkynnt var upphaflega um að kaupin stæðu til með fréttatilkynningu 17. maí á þessu ári. Geysir Green heldur á enn á 14,32% hlut í HS Orku, samkvæmt tilkynningunni, og verður gengið frá kaupum á þeim hlut innan skamms.

Kaup Magma á HS Orku eru umdeild og hafa stjórnvöld m.a. skipað sérstaka rannsóknarnefnd sem hefur það verkefni að kanna söluferli á hlutum í HS Orku, sem áður var sameinað HS Veitum undir Hitaveitu Suðurnesja. Nefndin er nú að störfum.

Þá hefur söngkonan Björk Guðmundsdóttir mótmælt kaupunum harðlega og gagnrýnt fyrirtækið fyrir virkjanaáform sín. Forsvarsmenn Magma svarað því til að Björk byggi skoðanir sínar ekki á réttum upplýsingum því séu óþarft hjá henni að hafa áhyggjur af kaupum Magma á fyrirtækinu.