Magnús Böðvar Eyþórsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sölu- og ráðgjafasviðs Skyggnis ehf. Í tilkynningu kemur fram að Magnús hefur víðtæka reynslu í upplýsingatækniiðnaði á sviði sölu- og markaðsmála, uppbyggingu þjónustulausna og rekstri tæknideilda. Hann starfaði áður hjá Símanum í þrjú ár, fyrst sem forstöðumaður Þjónustu og síðar sem forstöðumaður Sölu fyrirtækjasviðs. Þar áður starfaði hann í átta ár hjá Skýrr sem aðstoðarframkvæmdastjóri Sölu- og markaðsdeildar og síðar sem framkvæmdastjóri Þjónustulausna. Magnús er með BSc í tæknifræði frá Helsingör Teknikum í Danmörku.

Magnús mun bera ábyrgð á rekstri Sölu- og ráðgjafasviðs Skyggnis og starfa náið með öllum deildum félagsins í að móta áherslur í sölumálum og auka samlegð Skyggnis í sölu með móður- og systurfélögum þess.

Skyggnir sérhæfir sig í hönnun, uppsetningu og rekstri tölvu- og samskiptalausna. Hjá félaginu starfa um 180 manns. Skyggnir er hluti af Nýherja samstæðunni.