Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, keypti 45% hlut gamla Landsbankans í útgerðinni og átti hana alla þegar hann seldi hana til Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað. Landsbankinn tók yfir 45% hlut í útgerð Magnúsar árið 2009 upp í skuldir hans. Bæjarstjórn Vestmannaeyja brást hart við þegar tilkynnt var um söluna á útgerð Magnúsar til Síldarvinnslunnar í síðasta mánuði og telur hún að lög kveði á um að bærinn eigi forkaupsrétt að skipum og kvóta félagsins. Útlit er fyrir að málið fari fyrir dóm.

DV fjallar um kaup Magnúsar á hlut gamla Landsbankans í útgerðinni í dag. Magnús vildi ekki tjá sig við blaðið um málið.

Magnús átti að öllu leyti eða hluta í fjölda fyrirtækja fyrir hrun. Þar á meðal var fjárfestingarfélagið Gnúpur, Toyota-umboðið á Íslandi og skyndibitastaðurinn Domino's. Þá keypti félag Magnúsar hlut í gamla Landsbankanum rétt áður en hann fór í þrot. Magnús missti fyrirtækin að mestu úr höndunum í kjölfar hrunsins. Magnús sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í tengslum við söluna á Bergi-Huginn til Síldarvinnslunnar að hann væri fórnarlamb markaðsmisnotkunar.