Magnús Örn Guðmundsson, viðskiptafræðingur og sjóðstjóri hjá Stefni, býður sig fram í 4.- 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélags Seltirninga sem haldið verður 9. nóvember næstkomandi. Fram kemur í tilkynningu frá Magnúsi Erni að hann leggur áherslu á sjálfstætt Seltjarnarnes án skulda og að fyrirhuguðum framkvæmdum bæjarfélagsins sé forgangsraðað af skynsemi. Magnús Örn sat í umhverfisnefnd Seltjarnarness 2002-2006 og íþrótta- og tómstundaráði bæjarins 2008-2010.

Magnús Örn leggur áherslu á enn betri skóla, að aðbúnaður skólafólks sé eins og best verður á kosið og árangur nemenda samkvæmt því. Magnús vill nýta svigrúm til lækkunar á fasteignagjaldi og frekari lækkunar útsvars, en Seltirningar borga þriðja hæsta útsvarið á mann og fasteignaverð hefur farið hækkandi. Hann vill leggja áherslu á að þjónusta elstu íbúa bæjarins sé sem allra best en þeir eru hátt hlutfall bæjarbúa og fer fjölgandi.

Áframhaldandi öflugt íþrótta- og tómstundastarf og umhverfismál eru Magnúsi einnig hugleikin. Magnús Örn sat í umhverfisnefnd Seltjarnarness 2002-2006 og íþrótta- og tómstundaráði bæjarins 2008-2010. Þá sat Magnús í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir Suðvesturkjördæmi 2001-2003 og í stjórn Baldurs, félags ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, 1998-2003.

Magnús starfaði um árabil í forsvari fyrir meistaraflokk Gróttu í knattspyrnu og er einn af stofnendum Kraftlyftingafélags Seltjarnarness.