Athafnamaðurinn Magnús Kristinsson hefur keypt Bílaleigu Flugleiða ehf. (Hertz á Íslandi) af FL Group, segir í fréttatilkynningu. Kaupverðið er trúnaðarmál.

FL Group tilkynnti á föstudaginn að félagið hefði ákveðið að ská Icelandair í Kauphöll Íslands, en einnig var sagt frá því að félagið myndi selja Bílaleigu Flugleiða og setja Kynnisferðir í sölumeðferð.

Magnús Kristinsson segir engar breytingar fyrirhugaðar á rekstri félagsins og munu lykilstjórnendur sem og aðrir starfsmenn halda áfram störfum hjá félaginu.

?Tækifæri á bílaleigumarkaði eru fjölmörg og munu aukast enn frekar í náinni framtíð með vaxandi straumi ferðamanna til landsins. Sérlega gott starfsfólk Hertz á Íslandi er vel til þess fallið að nýta sér tækifærin á markaðinum og hlakka ég mjög til að starfa með þessum góða hópi til framtíðar," segir Magnús.

Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. var ráðgjafi kaupanda og Íslandsbanki hf. ráðgjafi seljanda.