Laun ráðherra lækka um tæp 14% og mánaðarlaun forsætisráðherra um 15% frá og með áramótum samkvæmt úrskurði Kjararáðs. Eftir þá breytingu verða mánaðarlaun forsætisráðherra 935 þúsund krónur og laun annarra ráðherra 855 þúsund krónur. Þingfararkaup lækkar einnig um áramótin, eða um tæp 7,5%, og verður 520 þúsund á mánuði.

Aðdragandi þessara lækkana er bréf frá forsætisráðherra til Kjararáðs, sem sent var þann 21. nóvember. Þar beindi forsætisráðherra þeim tilmælum til Kjararáðs að ákveða tímabundið, eða til ársloka 2009, að lækka laun þeirra sem heyra undir ráðið um 5-15%, þannig að þeir sem hafa hæstu launin tækju á sig hlutfallslega mesta skerðingu.

Þann 20. desember samþykkti Alþingi síðan breytingu á lögum um Kjararáð, þar sem ráðinu var gert að kveða upp nýjan úrskurð um laun ráðherra og þingmanna. Sá úrskurður liggur nú fyrir og er ráðinu óheimilt að endurskoða hann til hækkunar út árið 2009.