*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 19. október 2016 17:57

Mannabreytingar hjá Íslandssjóðum

Jóhannes Hauksson, Jónas Þór Jónasson, Hrönn Greipsdóttir og Haukur Skúlason taka við nýjum hlutverkum hjá Íslandssjóðum.

Ritstjórn
Jónas Þór Jónasson, Tanya Zharov stjórnarformaður , Kjartan Smári Höskuldsson, Hrönn Greipsdóttir, Jóhannes Hauksson og Haukur Skúlason.
Aðsend mynd

Fyrir utan ráðningu Kjartans Smára Höskuldssonar sem framkvæmdastjóra Íslandssjóða sem Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, hefur þetta dótturfélag Íslandsbanka gert frekari mannabreytingar.

Ávaxtar 100 milljörðum króna

Eru þær liður í aukinni áherslu félagsins á sérhæfðar fjárfestingar, svo sem fasteignaverkefni, lánasjóði og framtakssjóði.

Starfa nú fimmtán sérfræðingar í eignastýringu hjá Íslandssjóðum og eru um 100 milljarðar króna ávaxtaðir í sjóðum félagsins auk sérhæfðra fjárfestinga.

Samkvæmt fréttatilkynningu Íslandssjóða eru mannabreytingarnar eftirfarandi:

  • Jóhannes Hauksson hefur tekið við starfi forstöðumanns sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslandssjóðum og er staðgengill framkvæmdastjóra.

Jóhannes er með langa reynslu af fjárfestingum, fjármögnun fyrirtækja, verkefnafjármögnun og fjárhagslegri endurskipulagningu. Jóhannes er framkvæmdastjóri Akurs fjárfestinga slhf., framtakssjóðs í stýringu Íslandssjóða. Áður var Jóhannes forstöðumaður Fyrirtækjalausna, deildar sem annaðist fjárhagslega endurskipulagningu í Íslandsbanka árin 2010-2013.

  • Jónas Þór Jónasson hefur verið ráðinn sjóðsstjóri í sérhæfðum fjárfestingum Íslandssjóða.

Jónas Þór er með yfirgripsmikla reynslu af fasteignafjárfestingum, fasteignaþróun og uppbyggingu allt frá árinu 1999 þegar Jónas hóf störf hjá Þyrpingu (nú Reitir) og síðar hjá Klasa hf. Meðal fasteigna- og þróunarverkefna sem Jónas hefur unnið að má nefna Skuggahverfi 101, Kringluna, Norðurbakkann í Hafnarfirði, miðbæ Garðabæjar og Litlatún verslunarhverfi, Kauptún, Hotel Reykjavík Centrum, Hilton Canopy, Fontana Spa, Hádegismóa og Höfðahverfi í Elliðaárvogi.

  • Hrönn Greipsdóttir hefur verið ráðin sjóðsstjóri í sérhæfðum fjárfestingum Íslandssjóða.

Hrönn mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarfélagsins Eldeyjar TLH hf. sem fjárfestir í ferðaþjónustu og stýrt er af Íslandssjóðum.  Hrönn hefur yfirgripsmikla reynslu á sviði ferðaþjónustu og fjármála en hún var m.a. framkvæmdastjóri Hótel Sögu ehf. og sat í stjórn SAF um áraskeið.

  • Haukur Skúlason hefur verið ráðinn sjóðsstjóri í sérhæfðum fjárfestingum Íslandssjóða.

Haukur hefur viðamikla reynslu af innlendum fjármálamarkaði og fasteignafjárfestingum en áður en Haukur gekk til liðs við VÍB fyrr á þessu ári starfaði hann í fimm ár við umsýslu fjárfestingaeigna Tryggingamiðstöðvarinnar. Haukur settist í stjórn fasteignafélagsins FAST-1 við stofnun þess árið 2012 og gegnir nú stjórnarformennsku í félaginu, en FAST-1 er fasteignafélag í stýringu Íslandssjóða með rúmlega 22 milljarða í heildareignir.