

Fyrir utan ráðningu Kjartans Smára Höskuldssonar sem framkvæmdastjóra Íslandssjóða sem Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, hefur þetta dótturfélag Íslandsbanka gert frekari mannabreytingar.
Eru þær liður í aukinni áherslu félagsins á sérhæfðar fjárfestingar, svo sem fasteignaverkefni, lánasjóði og framtakssjóði.
Starfa nú fimmtán sérfræðingar í eignastýringu hjá Íslandssjóðum og eru um 100 milljarðar króna ávaxtaðir í sjóðum félagsins auk sérhæfðra fjárfestinga.
Jóhannes er með langa reynslu af fjárfestingum, fjármögnun fyrirtækja, verkefnafjármögnun og fjárhagslegri endurskipulagningu. Jóhannes er framkvæmdastjóri Akurs fjárfestinga slhf., framtakssjóðs í stýringu Íslandssjóða. Áður var Jóhannes forstöðumaður Fyrirtækjalausna, deildar sem annaðist fjárhagslega endurskipulagningu í Íslandsbanka árin 2010-2013.
Jónas Þór er með yfirgripsmikla reynslu af fasteignafjárfestingum, fasteignaþróun og uppbyggingu allt frá árinu 1999 þegar Jónas hóf störf hjá Þyrpingu (nú Reitir) og síðar hjá Klasa hf. Meðal fasteigna- og þróunarverkefna sem Jónas hefur unnið að má nefna Skuggahverfi 101, Kringluna, Norðurbakkann í Hafnarfirði, miðbæ Garðabæjar og Litlatún verslunarhverfi, Kauptún, Hotel Reykjavík Centrum, Hilton Canopy, Fontana Spa, Hádegismóa og Höfðahverfi í Elliðaárvogi.
Hrönn mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarfélagsins Eldeyjar TLH hf. sem fjárfestir í ferðaþjónustu og stýrt er af Íslandssjóðum. Hrönn hefur yfirgripsmikla reynslu á sviði ferðaþjónustu og fjármála en hún var m.a. framkvæmdastjóri Hótel Sögu ehf. og sat í stjórn SAF um áraskeið.
Haukur hefur viðamikla reynslu af innlendum fjármálamarkaði og fasteignafjárfestingum en áður en Haukur gekk til liðs við VÍB fyrr á þessu ári starfaði hann í fimm ár við umsýslu fjárfestingaeigna Tryggingamiðstöðvarinnar. Haukur settist í stjórn fasteignafélagsins FAST-1 við stofnun þess árið 2012 og gegnir nú stjórnarformennsku í félaginu, en FAST-1 er fasteignafélag í stýringu Íslandssjóða með rúmlega 22 milljarða í heildareignir.