Þau Trausti Harðarson og Gunnhildur Arnardóttir eru öllum hnútum kunnug í mannauðsmálum. Trausti hefur starfað á öllum stjórnunarstigum, allt frá almennum starfsmanni til forstjóra, og Gunnhildur hefur í tvígang fengið verðlaun frá forseta Íslands fyrir að vera leiðandi í mannauðsmálum.

Trausti og Gunnhildur höfðu bæði verið í skóla saman, og síðar unnið saman, og árið 2010 stofnuðu þau saman fyrirtækið HR Monitor, sem hefur þróað samnefnda hugbúnaðarlausn. „Okkur langaði að byggja eitthvað frá grunni. Við höfðum verið að skoða hvernig er hægt að skapa betra starfsumhverfi fyrir fjölmenna vinnustaði.“

Það sem þau enduðu á að búa til var hið áðurnefnda kerfi, HR Monitor, sem mælir lykilþætti mannauðar, sem Trausti segir þurfa að vera til staðar til að skapa framúrskarandi og drífandi starfsumhverfi. „Hugmyndafræðin okkar snýst um að færa mannauðsmálin á sama hraða og kraft og fjármálatölur og aðrar lykiltölur. Þannig að þegar forstjórinn setur fyrsta fund mánaðarins og fær frá fjármálastjóranum fjármálatölurnar, frá framleiðslustjóranum framleiðslutölurnar og sölustjóranum sölutölurnar, að hann fái frá mannauðsstjóranum mannauðstölur.“

Tvær mínútur að svara
Kerfið sendir stuttar kannanir á alla starfsmenn ýmist mánaðarlega, annan hvern, eða þriðja hvern mánuð, en Trausti segir það virka best mánaðarlega. „Það tekur bara tvær mínútur að svara. Til að byggja upp framúrskarandi og drífandi starfsumhverfi eru átta lykilþættir sem þurfa að vera til staðar og við spyrjum einnar spurningar um hvern þátt fyrir sig, en mismunandi spurningar frá mánuði til mánaðar. Svo er ein opin spurning,“ segir Trausti.

„Við erum búin að eyða út öllum bakgrunnsspurningum því við þurfum ekkert að vita lífaldur þinn eða starfsaldur eða kyn, við þurfum bara að vita hver er næsti stjórnandi. Út frá því getum við teiknað upp allt fyrirtækið. 70% okkar viðskiptavina mæla mánaðarlega, 20% annan hvern mánuð og 10% þriðja hvern mánuð. Svarhlutfall er best þegar mælt er sem oftast,“ segir hann.

„Við sáum strax að það var þörf á vörunni og í dag er HR Monitor nýtt af 500 stjórnendum og notað af á sjöunda þúsund starfsmönnum. Einnig erum við nú þegar komin með nokkra erlenda viðskiptavini. HR Monitor er búið að sanna sig á íslenskum markaði og við leggjum nú aðaláherslu á sókn á erlenda markaði.“ segir hann.

Eflir sjálfstæði og ábyrgð
„Við viljum tryggja að það sé fagleg og góð stjórnun alls staðar í fyrirtækinu. Með HR Monitor verður hver og einn stjórnandi meira meðvitaður og virkur í mannauðsstjórahlutverki sínu með því að fá niðurstöður fyrir sína rekstrareiningu frá mánuði til mánaðar. Þannig eflist sjálfstæði stjórnandans og ábyrgð í mannauðsmálum. Yfir tveir af hverjum þremur starfsmönnum segja að þetta sé að virka og 84% framkvæmdastjóra segja að þetta virki og hafi mikil áhrif á starfsemina,“ segir Trausti.

Trausti segir svörun vera yfir 90% þegar allir hafi aðgengi að tölvu, en milli 60 og 75% hjá fyrirtækjum þar sem meirihluti starfsmanna starfar við framlínustörf. Þá segir hann glaður í bragði frá því að 73% þeirra 6.300 starfsmanna sem kerfið nær til hlakki til að mæta í vinnuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .