Verkfræðistofan Mannvit hf. hannar um þessar mundir fyrsta orkuver Exorku sem hafist verður handa við að reisa í lok næsta árs í Bæjaralandi í Þýskalandi.  Um leið hafa verið gerðar viðbótarrannsóknir hér heima er tengjast verkefninu.

Í frétt á heimasíðu Rannís kemur fram að fyrsta áfanga rannsóknar og þróunarverkefnis um endurbætur á Kalina-orkuvinnsluferlinu sem hleypt var af stokkunum á haustmánuðum 2007 sé nú lokið.  Verkefnið var styrkt með 9,5 millj. kr. frá Tækniþróunarsjóði, en heildarkostnaður við þennan áfanga var 28,3 milljónir kr.

Niðurstöður þessa rannsóknar- og þróunarverkefnis munu koma að góðum notum við þá vinnu, þar sem þær stuðla að auknum afköstum orkuversins ásamt því að draga úr óvissu og kostnaði við byggingu þess.

Tilraunirnar fóru fram í orkuveri OH á Húsavík og var búnaður orkuversins að hluta til nýttur ásamt búnaði sem settur var upp sérstaklega vegna verkefnisins.  Verkefnisstjórn og rekstur var að mestu í höndum Mannvits hf., en Vahterus OY lagði til varmaskipta til prófunar við tilraunina.  Búnaðurinn sem var notaður í tilrauninni reyndist áreiðanlegur og þjónaði þeim tilgangi sem honum var ætlaður segir í frétt Rannís.